Einn helsti öryggisgalli kreditkorta felst í notkun þeirra á internetinu. Óprútnir aðilar eiga nokkuð auðvelt með að komast yfir kreditkortaupplýsingar sem þarf til úttektar af kortunum, þ.e. reikningsnúmer, útgáfudagsetningu og CSC öryggisnúmer. Þetta er helsta ástæða þess að mjög oft loka VISA og Mastercard á Íslandi fyrir erlendar úttektir.

 

Oft er það starfsfólk verslana og veitingastaða, sem tekur við kreditkortum viðskiptavina, sem afritar þessar upplýsingar og notar síðar til að svíkja út vörur á internetinu. Einnig er nokkuð algengt að “hakkarar” komast inn í gagnagrunna stórra fyrirtækja sem halda úti netverslunum og ná þaðan þessum sömu upplýsingum um kreditkort viðskiptavinanna. Þvínæst eru þessar upplýsingar notaðar til vörusvika eða úttekta gegnum internetið.

 

Öryggisgallinn felst semsagt í því að allar upplýsingar til að taka út af kreditkortum eru á kreditkortunum sjálfum. Ef fólk notar kreditkort á internetinu afhendir það sjálft allar upplýsingar til kaupmanns, til að hann geti tekið út af reikningi viðkomandi. Þetta er sambærilegt við að senda út óutfylltar undirskrifaðar ávísanir til kaupmanna og treysta þeim til að fylla út rétta upphæð og að viðskiptum loknum eyða umfram óútfylltu ávísununum.

 

Netgjaldmiðlar virka allt öðruvísi en kreditkort. Viðskiptavinur sem notar netgjaldmiðil ýtir fé af sýnu reikningsnúmeri yfir á reikningsnúmer kaupmanns án þess að gefa upp neinar öryggisupplýsingar.

Comments are closed.