Saga Auroracoin

Upphaf Auroracoin

Þann 24. janúar 2014 hóf einstaklingur eða hópur fólks undir dulnefninu Baldur Fryggjar Óðinsson útgáfu á netgjaldmiðlinum Auroracoin (AUR) með útgáfu á fyrstu blokkinni í keðju Auroracoin. Í kjölfarið opnaði Baldur spjallþráð a www.bitcointalk.org og tilkynnti að myntin hafi verið búin til fyrir Ísland.

 

Slegnar verða endanlega 21.000.000 einingar af myntinni. Helmingur myntarinnar var tekin frá í upphafi til dreifingar til íslensku þjóðarinnar með “Airdrop” úthlutun frá og með 25. mars 2014. Úthlutunin stóð yfir í eitt ár. Hinn helmingur myntarinnar eru verðlaun fyrir námugröft eftir myntinni, sem tryggir öryggi millifærslna og verður úthlutað fyrir hverja blokk til u.þ.b. ársins 2140. Auroracoin veski er forrit sem heldur utan um myntina og byggir á Litecoin, sem er afsprengi Bitcoin.

 

Baldur segir á www.bitcointalk.org að Auroracoin myntin sé hönnuð til að brjóta keðju ríkisrekins gjaldmiðils. Hann tilgreinir fjármálahrunið 2008, landlæga verðbólgu,  gengisveikingu og gjaldeyrishöft sem helstu ástæðu fyrir myntinni og að Auroracoin sé tækifæri fyrir Íslendinga til að frelsa sig sjálfa undan gjaldeyrishöftum og stöðugri veikingu krónunnar.

 

Hvarf Baldurs:

Baldur ætlaði sér ekki að standa einn að baki myntinni til framtíðar og ætlaðist til að samfélag í kringum myntina tæki að endingu yfir hans hlutverk og myndi standa á  baki við Auroracoin.

 

Þann 29. apríl 2014, fljótlega eftir að úthlutun var hafin sendi Baldur inn sína síðustu færslu á www.bitcointalk.org. Ekki er ljóst af hverju Baldur hætti samskiptum á þessum tímapunkti við samfélagið en vangaveltur höfðu verið um nafnleynd og trúverðuleika Baldurs auk mikillar virðisrýrnun á Auroracoin. Baldur hætti þó ekki verkefninu, heldur kláraði hvert skref úthlutunarinnar á réttum tíma. Síðasta verki Baldurs lauk 22. apríl 2015 þegar Baldur eyddi allri umfram mynt, sem ekki var sótt í airdrop úthlutuninni, með því að senda 5.344.628,347 Auroracoin á reikningsnúmerið AURburnAURburnAURburnAURburn7eS4Rf, sem hefur engan persónulegan lykil.

 

Það eru stjarnfræðilega litlar líkur á að Auroracoin veski með persónulegum lykli geti framkallað reikningsnúmer líkt og AURburnAURburnAURburnAURburn7eS4Rf, þar sem  persónulegur lykill getur ekki framkallað reikningsnúmer sem eru fyrirfram ákveðin. Í þessari addressu eru 28 stafir af 34 fyrirfram ákveðnir. Síðustu 6 stafirnir eru random, svo að reikningsnúmerið geti talist hæft til að móttaka Auroracoin.

 

Baldur svaraði samfélaginu að lokum á spjallþræðinum reddit.com 23. apríl 2015. Þar tilgreinir hann að verkefnið hafi farið í gegnum mikinn öldusjó, sökum mikillar athygli í upphafi, sem olli gríðarlegri spákaupmennsku og að lokum verðfalli myntarinnar. Baldur segir að útdeilingin (airdrop-ið) hafi ekki verið gallalaus. Hann tilgreinir að einhverjir óprúttnir aðilar hafi notað Facebook aðgang fólks til að svíkja út Auroracoin í útdeilingunni, sem var sennilega ástæða þess að hann lokaði fyrir Facebook auðkenningu í miðjum öðrum fasa útdeilingarinnar. Baldur segir að ástæða þess að hann jók magn Auroracoin í útdeilingu myntarinnar úr 31,8 Auroracoin, skv. upphaflegu plani í 318 Auroracoin í fasa tvö og síðar 636 Auroracoin í fasa þrjú hafi verið til að koma meira af myntinni í umferð. Að lokum segist hann nokkuð ánægður með verkefnið og þakkar öllum fyrir þátttökuna.

 

Úthlutun (airdrop)

Úthlutunin á Auroracoin hófst 25. mars 2014 á www.auroracoin.org og voru 10.500.000 Auroracoin í boði, þar sem hver Íslendingur gat fengið senda 31,8 Auroracoin, gegn því að staðfesta deili á sér með annaðhvort símanúmeri eða í gegnum Facebook. Síðar bættist við möguleiki á að gera grein fyrir sér með notkun Íslykils frá Hagstofu Íslands.

 

Á fyrsta degi úthlutunarinnar sóttu hátt í 9.000 einstaklingar sinn skammt og á fyrstu fjórum mánuðunum höfðu u.þ.b. 34.000 einstaklingar sótt Auroracoin eða u.þ.b. 10.2% þjóðarinnar.

 

  1. júlí 2014 hófst fasi tvö í úthlutuninni. Íslendingum stóð til boða að sækja 318 Auroracoin að þessu sinni. Baldur tók frá 1.000.000 Auroracoin, sem hann tileinkaði félagi sem mundi halda utan um Auroracoin til framtíðar. Í þessari seinni úthlutun sóttu u.þ.b. 5.000 Íslendingar 318 Auroracoin einingar.

 

  1. nóvember 2014 hófst þriðji og síðasti fasi úthlutunarinnar. Fjöldi eininga var hækkaður í 636 Auroracoin og sóttu u.þ.b. 2.500 Íslendingar að þessu sinni.

 

  1. mars 2015 lauk úthlutun á Auroracoin og hafði u.þ.b. 53% af myntinni verið komið í dreifingu til Íslendinga eða u.þ.b. 5.5 milljónir Auroracoin. Baldur lokaði www.auroracoin.org og áframsendi fyrirspurnir á lenið á www.auraspjall.is, sem er nýr vettvangur til samskipta um Auroracoin. Á þessum vettvangi hefur þróast samfélag, sem hefur að hluta til byrjað að ákvarða framtíð Auroracoin.

 

  1. apríl 2015 var allri umfram mynt eytt, sem ekki var sótt í airdrop úthlutuninni.

 

Verðþróun Auroracoin meðan á úthlutun stóð

Áður en eiginleg úthlutun Auroracoin hófst hafði skapast markaður fyrir Auroracoin á móti Bitcoin (BTC) á hinum ýmsu kauphöllum erlendis. Framboð af Auroracoin var nánast ekkert, þar sem einu einingarnar sem voru til sölu var verðlaunafé sem námuvinnsla hafði skilað af sér fram til þessa. Þann 3. mars 2014 fór verðið hvað hæst eða í u.þ.b. 0.17 BTC fyrir einn AUR eða u.þ.b. 11.000 kr. Við fyrstu úthlutunina 25. mars 2014 var verðið u.þ.b. 0.023 BTC fyrir einn AUR eða u.þ.b. 1.500 kr. og hafði verðið því lækkað frá hæsta punkti fyrir úthlutunina um 86% og var virði hvers úthlutaðs 31.8 skammts var því u.þ.b. 50.000 krónur. Á fyrsta degi úthlutunarinnar lækkaði verðið á Auroracoin um 47% og í fyrstu vikunni eftir úthlutun hafði verðið lækkað um önnur 47%. Við hverja úthlutun á Auroracoin lækkaði svo verðið eðlilega enn frekar og endaði virði eins Auroracoin í u.þ.b. 1 krónu við lok úthlutunarinnar.

 

Einn helsti gallinn við markaðsaðstæður fyrir Auroracoin á Íslandi fólust í gjaldeyrishöftum og vöntun á innlendri kauphöll, þar sem Auroracoin er keyptur og seldur fyrir íslenskar krónur. Íslendingar gátu selt Auroracoin á erlendum kauphöllum fyrir Bitcoin en gátu ekki keypt Auroracoin á þessum sömu kauphöllum vegna gjaldeyrishafta. Á markaði þar sem Íslendingar fengu úthlutað Auroracoin og gátu einungis selt Auroracoin var þvi ljóst að verðið mundi einungis lækka með auknu framboði við hverja úthlutun. Hækkandi verð á Auroracoin er því einungis mögulegt að úthlutun lokinni og ef að kauphöll sé rekin á Íslandi, þar sem hægt er að kaupa og selja Auroracoin fyrir íslenskar krónur.